Heildartap lífeyrissjóðanna á árunum 2008 til 2010 nam 480 milljörðum króna og kemur um 40% þessa taps til vegna kaupa á skuldabréfum fjármálafyrirtækja og fyrirtækja. Þá eru önnur 40% komin til vegna eignar í innlendum hlutabréfum. Er þetta meðal niðurstaðna í skýrslu nefndar um fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og áhættumat lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins, en skýrslan var kynnt á blaðamannafundi í dag.

Heildartap vegna eignar í hlutabréfum á árunum 2008 til 2009 nam 198,8 milljarða króna og eru um 65% þessa taps, eða um 129 milljarðar króna, til komin vegna þriggja tengra aðila, þ.e. Kaupþings, Exista og Bakkavarar.

Þegar skoðað er tap sjóðanna vegna skulda- og hlutabréfaeignar samtals nemur það 389,2 milljörðum króna og nam hlutdeild Baugs og tengdra fyrirtækja um 20% af heildartapinu. Hlutdeild Exista og tengdra aðila nemur hins vegar 44% þegar tap á hlutabréfa- og skuldabréfaeign er skoðuð.