Í ljósi þess að Kaupþing banki hefur afráðið að höfða mál gegn breskum stjórnvöldum, hyggst Exista bíða niðurstöðu málaferla Kaupþings áður en ákvörðun verður tekin um frekari málarekstur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Exista en þar segir að Exista hafi á undanförnum vikum kannað ítarlega grundvöll málaferla í Bretlandi vegna greiðslustöðvunar Kaupthing Singer & Friedlander, dótturfélags Kaupþings banka.

Exista var stærsti hluthafi bankans þegar Kaupthing Singer & Friedlander var yfirtekinn af breskum stjórnvöldum „og hefur félagið þegar lagt verulegar fjárhæðir í undirbúning málsins,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að Exista hefur stutt Kaupþing við undirbúning málsins og veitti bankanum aðgang að öllum gögnum sem unnin hafa verið fyrir Exista af breskum lögmönnum félagsins.

„Það er mat Exista að skynsamlegast sé að Kaupþing, eigendur gamla Kaupþings og íslensk stjórnvöld sameini krafta sína í að fá úr því skorið hver réttur bankans er vegna aðgerða breskra stjórnvalda gagnvart Kaupthing Singer & Friedlander,“ segir í tilkynningunni en jafnframt er tekið fram að hugsanleg skaðabótakrafa mun svo ráðast af niðurstöðu þess málareksturs.