Exista hefur aukið hlut sinn í norska tryggingafélaginu Storebrand og er nú komið með 6,18% stöðu í félaginu samkvæmt staðfestum upplýsingum Viðskiptablaðsins. Ekki reynir á flöggunarskyldu fyrr en farið er 10% stöðu í félaginu.

Talsverð viðskipti voru með bréf í Storebrand á fimmtudaginn var í kjölfar þeirrar niðurstöðu norska fjármálaeftirlitsins, að Kaupþing og Exista teldust ekki eiga í samstarfi um eignarhald á hlut í Storebrand. Hækkuðu bréf félagsins þá um 3,43% en lækkuðu aftur aðeins á föstudaginn.

Við ákvörðun sína horfði fjármálaeftirlitið til þess að Kaupþing keypti 20% hlut í félaginu 14. maí síðastliðinn, en hafði áður sótt um fá að kaupa fjórðung, eða 25% og verið synjað um það af norska fjármálaeftirlitinu. Exista keypti 5,56% í Storebrand í byrjun ágúst og í kjölfarið tók eftirlitið til skoðunar hvort um væri að ræða samstarf um samanlagðan eignarhlut, en Exista er stærsti eigandi Kaupþings með 23% hlutafjár.