Mike Ashley, eigandi bresku íþróttavöruverslunarinnar Sports Direct og úrvalsdeildarliðsins Newcastle, hefur lagt fram yfirtökutilboð í keppinautinn JJB Sports. Útlit er fyrir að verði tilboðinu tekið muni Ashley loka um helmingi verslana JJB Sport og setja það sem ekki skilað arði í þrot.

Exista með bræðurna Ágúst og Lýð Guðmundssyni fremsta í stefni keypti 29% hlut í JJB Sports um mitt ár  2007 ásamt Chris Ronnie, sem varð forstjóri fyrirtækisins. Kaupverðið nam 190 milljónum punda, jafnvirði 24 milljarða króna á gengi þess tíma. Singer & Friedlander, banki Kaupþings í Bretlandi, sá um viðskiptin og annaðist fjármögnunina. Verðmæti verslunarinnar nam einum milljarði punda um það leyti.

Lýður Guðmundsson stórnarformaður Exista
Lýður Guðmundsson stórnarformaður Exista
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)

JJB Sports var um langt skeið ein af helstu íþróttavöruverslunum Bretlands. Í umfjöllun netútgáfu breska dagblaðsins Guardian um sportvöruverslunina um helgina er því lýst að verslunin hafi átt betri tíð en nú um stundir. Til marks um það keypti Exista og Ronnie hlutinn á 275 pens á hlut. Margt hefur gerst síðan þá. Kaupþing og Exista heyra sögunni til og Chris Ronnie lent undir smásjá efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar.

Svipuðu máli gegnir um JJB Sports hefur hefur horft upp á minni sölu á íþróttavörum á sama tíma og félagið er bugað af skuldum. Gengi hlutabréfa félagsins stendur nú í 0,31 pens á hlut, sem þýðir að kaupverð Exista er fyrir löngu orðið að engu. Því verður þó að halda til haga, að skilanefnd Kaupþings tók hlutinn í JJB Sports yfir í byrjun árs 2009.

Félagið hefur gengið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og nýr eigandi kominn að félaginu. Honum mistókst reyndar að tryggja endurfjármögnun á skuldum félagsins fyrr á árinu og hefur hann boðið félagið falt. Staðan er hins vegar slík, að stjórnendur hafa samþykki fyrir því að setja félagið í þrot og reyna að selja það úr þrotabúinu.