Finnska fjármálafyrirtækið Sampo hagnaðist um 1,2 milljarða evra fyrir skatta og gjöld á fyrstu níu mánuðum ársins. Þetta jafngildir tæpum 200 milljörðum íslenskra króna. Þetta er um 300 milljónum evra betri afkoma en fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Kari Stadigh, forstjóri Sampo, segist í samtali við danska blaðið Börsen , kátur með uppgjörið.

Af mánuðunum níu nam rekstrarhagnaður Sampo á þriðja ársfjórðungi 314 milljónum evra. Í Börsen segir að afkomuspá Bloomberg-fréttaveitunnar hafi verið út úr kortinu enda reiknað með talsvert meiri hagnaði, 333 milljónum evra. Bent er á að hvort heldur sem er þá sé niðurstaðan mjög góð enda hagnaðurinn rúmlega tvöfalt meiri en á þriðja fjórðungi í fyrra þegar hann nam 125 milljónum evra.

Exista átti frá því snemma árs 2007 og fram í október 2008 tæpan 20% hlut í Sampo og sat Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu, til skamms tíma í stjórn Sampo. Því til viðbótar átti Kaupþing hlut í tryggingafélaginu. Exista seldi hlutinn í Sampo í bankahruninum með 20% afslætti í október árið 2008 og tapaði 1,4 milljörðum evra á fjárfestingunni, þ.e. tæpum 230 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag.