Stjórnendur Existu voru léttir á lund á uppgjörsfundi félagsins í morgun. Eins og áður hefur verið greint frá nam tap Existu 4,2 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi, sem var talsvert yfir væntingum greiningaraðila.

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður félagsins, sagði í viðtali við blaðamann eftir fundinn að greinendur geri sér að öllum líkindum ekki grein fyrir þeim vörnum sé félagið búi yfir - og því hafi spárnar verið neikvæðari en afkoman reyndist vera.

Exista hefur greitt niður mikið af skuldum á fjórðungnum, og hefur handbært fé félagsins dregist saman í tak við það. Einnig hafa vaxtagjöld dregist saman, vegna lægri skulda.

Stjórnendur voru spurðir um viðskiptavild, sem er töluvert há í bókum félagsins, og hvort þörf sé á afskriftum vegna hennar. Svör þeirra voru að félög þeirra, t.d. VÍS, væru með sterka markaðsstöðu og háa viðskiptavild, og að þeir teldu ekki vera þörf á að afskrifa hluta af viðskiptavild félagsins.

Á fundinum kom einnig fram að félagið sé vel fjármagnað fram til loka árs 2009.

Þá sagði stjórnarformaður félagsins það hafa sýnt mikla þrautseigju í gegnum erfiða tíma og að hann hefði fulla trú á að félagið muni koma sterkt út úr þessum umbrotatímum sem nú ganga yfir á mörkuðum.

Starfsemi Existu skiptist í fjárfestingar og fjármálaþjónustu. Fjármálaþjónustuhlutinn skilaði hagnaði á fyrri helmingi ársins, en fjárfestingahlutinn dró afkomuna niður.

Blaðamaður tók viðtal við Lýð Guðmundsson, stjórnarformann, að loknum fundi og mun upptaka af viðtalinu birtast hér á vefnum síðar í dag.