Hluthafafundur Exista, sem haldinn var í dag, samþykkti allar tillögur stjórnar félagsins en þær fólu meðal annars í sér að félagið yrði skráð úr Kauphöllinni.

Þá var einnig samþykkt tillaga um að auka hlutafé félagsins um 50 milljarða króna að nafnverði eða jafngildi þeirrar upphæðar í evrum og tillaga um að stjórn félagsins undirgengist fjárskuldbindingar, fyrir hönd félagsins, sem breyta má í hlutafé í félaginu og heimild til hækkunar hlutafjár í samræmi við það.

Þá verður stjórninni heimilað að taka lán eða gangast undir annars konar fjárhagslega skuldbindingu fyrir rétt rúmlega 7 milljarða króna, eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendum myntum, sem breyta má í hluti í félaginu.

Þá var stjórninni einnig veitt heimild til ótakmarkaðrar sölu á eignum félagsins „vegna verulegra efnahagslegra erfiðleika í þjóðfélaginu,“ eins og það er orðað í tillögunni.