Stjórn Exista hf. [ EXISTA ] ákvað á fundi sínum í morgun, 19. Mars 2008, að leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Skipta hf. Tilboð Exista hljóðar upp á 6,64 krónur á hlut sem er sama verð og í nýafstöðnu hlutafjárútboði Skipta. Greitt verður með nýjum hlutum í Exista sem verða verðlagðir í samræmi við lokagengi á OMX ICE í gær, 18. mars, sem var 10,1 króna á hlut. Fyrirhugað er að tilboðið standi í átta vikur. Verði gengið að tilboðinu mun Exista leggja til við stjórn Skipta að óskað verði eftir afskráningu félagsins eins fljótt og auðið er, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Ástæða tilboðs Exista er sú að félagið telur ekki vera grundvöll fyrir eðlilega verðmyndun með hlutabréf Skipta á markaði í ljósi niðurstöðu nýafstaðins hlutafjárútboðs og þeirra óvenjulega erfiðu markaðsaðstæðna sem nú ríkja. Vegna samþjappaðs eignarhalds og markaðsaðstæðna eru verulegar líkur á því að félagið og hluthafar þess muni ekki njóta þeirra kosta sem fylgja skráningu í kauphöll.

Stefnt er að því að kanna skráningu félagsins á ný þegar aukið jafnvægi verður komið á fjármálamörkuðum.

Tilboðsverð og útgáfa nýs hlutafjár Exista

Það er mat Exista að tilboðsverðið, 6,64 krónur á hlut, endurspegli á sanngjarnan hátt núverandi raunvirði Skipta í samanburði við önnur fjarskiptafyrirtæki á markaði og nýlegar yfirtökur á sambærilegum fyrirtækjum.  Exista og dótturfélög þess eiga þegar 43,68% hlutafjár í Skiptum og gerir Exista tilboð í alla útistandandi hluti félagsins.  Verði tilboðið samþykkt mun stjórn Exista nýta heimild í samþykktum félagsins til útgáfu allt að 2.846.026.330 nýrra hluta í Exista. Hlutafé Exista mun því að hámarki aukast úr 11.361.092.458 hlutum í allt að 14.207.118.788 hluti og eigið fé félagsins mun aukast um allt að 28,7 milljarða króna.  Tilboðið er háð skilyrði um samþykki samkeppnisyfirvalda að því marki sem það kann að vera áskilið lögum samkvæmt.

Ástæður tilboðs og afskráning

Skipti voru skráð á OMX ICE í dag, 19. mars 2008, í kjölfar hlutafjárútboðs. Útboðið og skráning félagsins á hlutabréfamarkað var í samræmi við ákvæði kaupsamnings sem upphaflega var gerður við sölu ríkisins á 98,8% hlut í Landssíma Íslands hf. árið 2005. Í útboðinu, sem stóð frá 10. til 13. mars 2008, var almenningi og öðrum fjárfestum boðið að kaupa 30% hlutafjár félagsins. Einungis seldust um 7,5% hlutafjár í félaginu.  Ljóst er að hlutafjárútboð Skipta markaðist af óvenjulega erfiðum aðstæðum á fjármálamörkuðum um þessar mundir. Tímasetning útboðs og skráningar Skipta réðist einungis af þeim samningi sem gerður var við sölu félagsins árið 2005, en ekki af þeim markaðsaðstæðum sem nú ríkja. Það er mat stjórnar Exista að vegna markaðsaðstæðna og samþjappaðs eignarhalds sé veruleg hætta á því að félagið og hluthafar þess muni ekki njóta þeirra kosta sem fylgir skráningu í kauphöll.  Verði gengið að tilboðinu mun Exista því leggja til við stjórn Skipta að óskað verði eftir afskráningu félagsins úr OMX ICE eins fljótt og auðið er.

Markmið með tilboði

Kauptilboð Exista felur ekki í sér neina stefnubreytingu í starfsemi Skipta. Exista hyggst áfram styðja stjórnendur félagsins við að framfylgja þeirri stefnu sem þeir hafa mótað og fylgt á undanförnum árum. Undir forystu þeirra hafa Skipti og dótturfélög þess náð mjög góðum árangri innanlands og erlendis og aukið verulega umfang rekstrarins og þjónustu við viðskiptavini.

Þrátt fyrir nýafstaðið hlutafjárútboð er eignarhald Skipta fremur þröngt og hluthafar tiltölulega fáir, sem er óæskilegt fyrir verðmyndum hlutabréfa á markaði. Exista er hins vegar annað fjölmennasta hlutafélag landsins og hlutabréf félagsins eru í flokki veltumeiri bréfa á OMX ICE.  Í gegnum eign sína í Exista mun hluthöfum Skipta gefast kostur á að njóta með óbeinum hætti þess ávinnings sem Skipti kunna að skapa í framtíðinni.

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista segir: „Sem leiðandi hluthafi axlar Exista ábyrgð gagnvart Skiptum og starfsfólkiþess. Við núverandi markaðsaðstæður teljum við mikilvægt að tryggja stöðugleika í eignarhaldi félagsins og styðja þannig frekar við vöxt þess og trausta þjónustu við viðskiptavini.

Þegar ríkið seldi hlut sinn um mitt ár 2005 var ófyrirséð hvernig fjármálamarkaðir yrðu nú þegar Skipti fara á markað. Kaupendur félagsins hafa staðið við gerða samninga að fullu, þrátt fyrir erfiðasta ástand á hlutabréfamörkuðum í áratugi.   Útboð á hlutum í félaginu leiddi í ljós að hlutabréfamarkaðurinn er ekki tilbúinn til þess að taka við nýju félagi í núverandi árferði. Því býðst Exista til þess að kaupa hluti annarra hluthafa á útboðsverði og afskrá félagið í kjölfarið. Samkvæmt tilboðinu er árleg meðalávöxtun lífeyrissjóða og annarra fjárfesta sem tóku þátt í einkavæðingu félagsins árið 2005 um 20%. Það er von okkar að síðar skapist grundvöllur til þess að skrá Skipti á hlutabréfamarkað á ný.“