Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] hækkaði um 0,2% í dag og stendur við lok markaða í 4.220 stigum. Úrvalsvísitalan hreyfðist lítið en hæst fór hún í 4.231 stig og hafði þá um tíma hækkað um 0,3%.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu lækkanir einstakra félaga en Exista [ EXISTA ] hækkaði nokkuð hratt undir lok dags.

Velta með hlutabréf var lítil fram undir hádegi eða aðeins um 300 milljónir.

Á hádegi fóru þó fram ein stök viðskipti með bréf í Kaupþing [ KAUP ] fyrir um 4,1 milljarð. Um er að ræða sölu á 5,7 milljón hlutum á genginu 722 sem var meðalgengi félagsins fram eftir degi í dag. Kaupþing lækkaði um 0,1% í dag og var gengi félagsins 718 við lok markaða.

Heildarvelta með hlutabréf var í dag um 5,5 milljarðar en þar af voru um tæpir 4,9 milljarðar með bréf í Kaupþing.

Velta með bréf í Glitni [ GLB ] var um 240 milljónir, í Landsbankanum [ LAIS ] um 170 milljónir og í Exista um 107 milljónir talsvert minni velta er með hlutabréf í öðrum félögum.

Krónan hefur það sem af er degi styrkst um 0,7% frá opnum gjaldeyrismarkaða og er gengisvísitalan nú 158,7 stig líkt og hún var á hádegi. Gjaldeyrismarkaður er þó enn opinn.