Exista hf. sendi, eftir lokun markaðar þann 1. ágúst 2007, flöggunartilkynningu til kauphallarinnar í Osló (Oslo Børs) þess efnis að Exista, ásamt dótturfélögum, ráði nú yfir 13.901.120 hlutum í Storebrand ASA
(Storebrand), eða samtals 5,56% af heildarhlutafé félagsins.

Áætlað meðalkaupverð hluta Exista í Storebrand nemur 76,25 norskum krónum á hlut. Samkvæmt lokagengi Storebrand í Oslo Børs í gær nam markaðsvirði hlutar Exista 152 milljónum evra, eða um 13 milljörðum króna, segir í tilkynningu.

Fyrir viðskiptin átti Exista, ásamt dótturfélögum sínum, 12.394.770 hluti í Storebrand.

Storebrand er leiðandi aðili á sviði lífeyris- og líftrygginga, bankastarfsemi og eignastýringar í Noregi.

"Fjárfesting okkar í Storebrand endurspeglar þá trú sem við höfum á fjármálaþjónustu í Norður-Evrópu," segir Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista.