Exista hefur byggt upp 8% hlut í írska matvælaframleiðandanum Greencore og hefur orðrómur sprottið upp í kjölfarið um mögulega yfirtöku á fyrirtækinu. Frá þessu var greint í írskum fjölmiðlum.

Sem kunnugt er á Exista 40% hlut í matvælafyrirtækinu Bakkavör, sem á breska matvælaframleiðandann Geest. Í fréttinni segir að möguleiki sé á að Lýður og Ágúst Guðmundssynir muni sækjast eftir því að sameina samlokugerð fyrirtækisins við starfsemi Geest.

Þá var einnig greint frá því að  Robert Tchenguiz, stjórnarmaður í Exista, væri búinn að byggja upp 10% hlut í Greencore.

Hlutabréf í Greencore hafa hækkað um 8,25% það sem af er morgni.