Exista-menn hafna því að hafa verið í stöðutöku gegn krónunni í tilkynningu sem félagið hefur sent frá sér. Þvert á móti segist félagið hafa dregið úr gjaldmiðlasamningum allt árið 2008

Í tilkynningunni segir að vangaveltur sem fram hafa komið í fjölmiðlum um að Exista hafi stundað spákaupmennsku gegn íslensku krónunni eiga ekki við rök að styðjast. Áhætta í reikningum félagsins hefur verið með krónunni, því var það félaginu ekki í hag að krónan veiktist.

,,Exista hefur frá ársbyrjun 2007 fært reikninga sína í evrum, enda hafa eignir og skuldir félagsins verið að meirihluta í erlendri mynt. Frá þeim tíma hefur félagið varið eigið fé sitt gagnvart sveiflum í öðrum gjaldmiðlum en evru, m.a. norskri krónu, pundum og íslensku krónunni enda hlutir félagsins í Kaupþingi banka, Bakkavör Group og fleiri félögum í krónum. Exista hefur varið stöðu sína gagnvart krónunni einungis að hluta og dró félagið heldur úr varnasamningum á árinu 2008. Varnir á eigið fé er eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í ábyrgum rekstri fjármálafyrirtækis," segir í tilkyningunni

Exista hefur gert samninga um gengisvarnir við alla stærstu viðskiptabankana. Kostnaður vegna varnasamninga er umtalsverður og hefur Exista á undanförnum tveimur árum greitt íslenskum bönkum þóknanir og vaxtamun sem hleypur á tugum milljarða króna vegna varna félags á eigið fé.

Exista hefur átt í viðræðum við íslensku bankana meðal annars vegna uppgjörs varnasamninga og er enginn ágreiningur um réttmæti þessara samninga eða að til þeirra hafi verið stofnað á eðlilegum rekstrarlegum forsendum," segir í tilkynningunni.