Héraðsdómur Reykjavíkur hefur að beiðni stjórnar Exista veitt félaginu heimild til að leita nauðasamninga við kröfuhafa sína. Stjórn Exista sem er skipuð fulltrúum stærstu kröfuhafa félagsins er einhuga um að leita nauðasamninga. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Exista.

Ákvörðun stjórnar byggir á ítarlegri greiningu á stöðu félagsins og hvernig hámarka megi endurheimtur kröfuhafa. Nefndir bæði innlendra og erlendra kröfuhafa hafa ásamt félaginu unnið að málefnum Exista og er framlagður nauðasamningur niðurstaða þeirrar vinnu.

Í fréttatilkynningunni kemur fram að samkvæmt frumvarpi að nauðasamningi eignast kröfuhafar Exista að fullu, en Exista verður rekið áfram í breyttri mynd. Með fjárhagslegri endurskipulagningu Exista er gert ráð fyrir að félagið geti þjónustað og aukið verðmæti eigna sinna með hagsmuni kröfuhafa að leiðarljósi. N

auðasamningsferlið mun ekki hafa áhrif á daglegan rekstur dótturfélaga Exista sem eru Vátryggingafélag Íslands hf., Líftryggingafélag Íslands, Lýsing hf. og Skipti hf.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur skipað Magnús Guðlaugsson hæstaréttarlögmann sem umsjónarmann með nauðasamningsumleitunum Exista.