Exista tilkynnir fyrir skömmu að félagið hafi ákveðið að nýta rétt sinn í væntanlegu forgangsréttarútboði Kaupþings banka. Útboðið er hluti af fjármögnun Kaupþings á kaupum á hollenska bankanum NIBC.

Exista er stærsti hluthafi Kaupþings og hefur félagið skuldbundið sig til skráningar á öllum hlut sínum í forgangsréttarútboðinu (u.þ.b. 13 milljónum hluta). Stefnt er að því að útboðið fari fram fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2008.

Í tilkynningu á heimasíðu Exista segir að allt 210 milljónir nýrra hluta í Kaupþingi banka verða gefnir út í tengslum við kaupin á NIBC og þar af verða 70 milljónir hluta boðnir hluthöfum í forgangsréttarútboði. Exista hefur jafnframt gert samkomulag um að sölutryggja allt að 50% forgangsréttarútboðsins, eða sem nemur 35 milljónum hluta (þar með talda þá 13 milljónir hluta sem félagið hefur skráð sig fyrir). Útgáfa nýrra hluta mun þynna eignarhlut Exista í Kaupþingi, sem nú er yfir 23%, niður í u.þ.b. 20-22% eftir forgangsréttarútboðið. Hópur fjárfesta undir forystu J.C. Flower & Co hafa gert samkomulag um að sölutryggja hinn helming forgangsréttarútboðsins.

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista segir í tilkynningunni að: „Exista hafi notið gífurlegs ávinnings af því að styðja við og taka þátt í vexti Kaupþings þau undanfarin sex ár sem félagið hefur verið stærsti hluthafi bankans. Við teljum að kaupin á NIBC muni efla stöðu Kaupþings enn frekar sem leiðandi banka fyrir meðalstór fyrirtæki og efnaða einstaklinga í Norður Evrópu. Því erum við ákveðin í að nýta réttindi okkar í útboðinu og fögnum því að fá tækifæri til að taka þátt í að sölutryggja forgangsréttarútboðið.“