Á aðalfundi finnska fjármálafyrirtækisins Sampo í dag sagði Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, að fyrirtækið hyggðist ekki vera óvirkur hluthafi í Sampo, þó svo að Exista hafi ekki sóst eftir því að koma manni inn í stjórn fyrirtækisins.

"Þvert á móti höfum við mikinn metnað fyrir Sampo og teljum að möguleikar fyrirtækisins séu gríðarlegir. Við munum veita stjórninni þann stuðning og aðhald sem þarf til að ná settum markmiðum," sagði Lýður.

Lýður sagði einnig að fjárfestingin væri mjög mikilvæg fyrir Exista og að hún endurspeglaði áhuga félagsins á norrænum fjármálaþjónustumarkaði. Þá ítrekaði hann að fjárfestingin væri hugsuð til lengri tíma.

Exista á 15,58% hlut í Sampo og hefur fengið heimild frá finnska tryggingaeftirlitinu að eignast allt að 20% hlut í Sampo án frekara samþykkis.