Nýsköpunarfyrirtækið Expeda ehf. hefur gert rannsóknarsamning við alþjóðlega lyfjafyrirtækið Celltrion í Suður Kóreu sem og lyfjafyrirtækið Portfarma á Íslandi.

Verkefnið sem um ræðir er á sviði iktsýki, sem er einn fjölmargra sjálfsofnæmissjúkdóma sem hafa langan greiningartíma.

í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að vegna þess hve greiningartími sjálfsofnæmissjúkdóma getur verið langur sé vaxandi alþjóðlega krafa um notkun nýrra leiða til greiningar og meðhöndlunar á slíkum sjúkdómum.

Nýsköpunarfyrirtækið Expeda ehf. hefur þróað veflægar þjónustur sem byggja m.a. á notkun gervigreindar til greiningar, meðferðar og eftirlits sjúkdóma. Fyrirtækið hefur t.a.m. staðið að þróun og sölu hugbúnaðar á sviði beinþynningar (BeinRáður) og sjálfsofnæmissjúkdóma (Gigtráður/Gigtgreinir) á innlendum og erlendum vettvangi.

Megin tilgangur rannsóknarsamningsins er notkun Gigtráðar og Gigtgreinis við eftirlit og meðferð einstaklinga með iktsýki sem fá meðferð með TNFalpha hemjandi lyfi (Remsima). Samhliða verða niðurstöður rannsóknarinnar bornar saman við sjúkraskrárkerfið IceBio ásamt lífvirkniþáttum, að því er fram kemur í tilkynningunni.