Olíufyrirtækið bandaríska ExxonMobil hefur tilkynnt um 20 milljarða dala niðurskurð í kostnaðaráætlunum sínum. Það eru um það bil 2.600 milljarðar íslenskra króna. Hlutfallslega séð er það um 46% niðurskurður.

Verðhrun hráolíunnar hefur neytt mörg olíufyrirtæki til gífurlegs niðurskurðar, en hagnaður Exxon á árinu liðna féll um 50% milli ára. Hlutabréfaverð fyrirtækisins hefur fallið með hagnaðinum um 22% frá júlí 2014.

Niðurskurðurinn er ekki einangrað tilfelli. Samantekt fyrirtækisins Rystad Energy metur heildarniðurskurð iðngreinarinnar vegna hráolíuverðsins sem um 250 milljarða Bandaríkjadala á árinu 2015 - sem eru 32.500 milljarðar íslenskra króna.