Bandaríska olíufyrirtækið Exxon Mobil skilaði 11,68 milljarða Bandaríkjadala hagnaði á 2. ársfjórðungi, sem er mesti hagnaður sem fyrirtæki hefur skilað á einum fjórðungi í Bandaríkjunum. Fyrra metið átti Exxon líka, en það var 11,66 milljarða hagnaður á fjórða fjórðungi síðasta árs.

Hagnaður á 2. fjórðungi jókst um 14% borið saman við sama tímabil árið 2007. Hagnaðaraukningin er fyrst og fremst hækkun hráolíuverðs að þakka, sem var tæplega helmingi hærra á 2. fjórðungi 2008 en á sama tíma árið 2007.

Þrátt fyrir mikinn hagnað Exxon á 2. fjórðungi þessa árs var hann lægri en spár höfðu gert ráð fyrir og lækkuðu bréf félagsins um 3% í kjölfar uppgjörsins. Minnkandi eftirspurn eftir eldsneyti setti strik í reikninginn hjá fyrirtækinu.