Bandaríska olíu- og gasfyrirtækið ExxonMobil, sem er eitt stærsta olíufélag heims, verður tekið úr vísitölu Dow Jones eftir 92 ára viðveru. Ekkert annað félagið hefur verið skráð jafn lengi á Dow Jones vísitöluna en hún er 124 ára gömul.

Félaginu verður skipt út fyrir hugbúnaðarfyrirtækið Salesforce. Skiptin eru viss tímamót þar sem eftirspurn af jarðefnaeldsneyti dregst saman víðsvegar um heiminn á sama tíma og hugbúnaðarfyrirtæki skapa sér stærri sess í nútímahagkerfi. Umfjöllun á vef New York Times.

Ásamt Exxon verða félögin Raytheon Technologies og lyfjaframleiðandinn Pfizer tekin úr vísitölunni. Tilkynningin kemur í kjölfar þess að Apple hefur ákveðið að skipta hlutabréfum sínum í fjóra hluta sem hefur veruleg áhrif á vísitöluna. Ástæðan er sú að vísitalan tekur tillit til verðs en ekki markaðsverðs og mun vægi Apple lækka úr 12% í um það bil 3%.