Alþjóðlega endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young (EY) hefur sett fyrirhugaðan aðskilnað á endurskoðunar- og ráðgjafarhluta fyrirtækisins á ís í kjölfar innbyrðis deilna og mótstöðu frá stjórnendum í Bandaríkjunum.

Átján manna leiðtogateymi EY á alþjóðavísu, sem samþykkti áformin sem báru nafnið „Project Everest“ í september, sagðist í bréfi til meðeiganda í gær að hafa stöðvað vinnu vegna verkefnisins í ljósi afstöðu framkvæmdastjórnar EY í Bandaríkjunum.

Alþjóðlega stjórnendateymið sagðist þó áfram vera staðráðið í að „búa til tvær heimsklassa stofnanir sem stuðla að enn betri gæðum í endurskoðunarstörfum, sjálfstæði og aukið val hjá viðskiptunum“.

Í umfjöllun Financial Times segir að Project Everest hafi verið stutt af Carmine Di Sibio, forstjóra EY á alþjóðavísu sem taldi að með uppstokkuninni gætu endurskoðunar- og ráðgjafarhluti fyrirtækisins losnað við kvaðir vegna reglna um hagsmunaárekstra sem við núverandi fyrirkomulag komi í veg fyrir að ráðgjafar hjá EY geti veitt þjónustu við marga viðskiptavini endurskoðunarhlutans.

Stjórnendur í Bandaríkjunum voru ekki sannfærðir um að skynsamlegt væri að skipta upp skattaráðgjöfinni upp í tvennt og óttuðust um að endurskoðunarhlutinn yrði ekki nægilega fjársterkur til að halda uppi gæðum í endurskoðunarstörfum sínum.

EY hefur varið hundruð milljónum dala í Project Everest og fleiri en tvö þúsund starfsmenn hafa komið að undirbúningi uppstokkunarinnar.