Endurskoðendafyrirtækið EY í Þýskalandi mistókst í meira en þrjú ár að fara fram á mikilvægar upplýsingar um fjármuni á reikningi í singapúrskum banka. Wirecard hélt því fram innstæða á reikningnum væri allt að einum milljarði evra.

Í frétt Financial Times er þessu lýst þessu sem hefðbundinni endurskoðunarvenju sem hefði getað afhjúpað meinta svikastarfsemi þýska fyrirtækisins. EY, sem hefur endurskoðað Wirecard í meira en áratug, hefur fengið mikla gagnrýni eftir að fjártæknifyrirtækið sótti um gjaldþrotaskipti í vikunni og tilkynnti að 1,9 milljarðar evra á efnahagsreikningi þess „væru líklega ekki til“ .

Fólk með þekkingu á málinu tjáði FT að endurskoðandinn hafi frá árinu 2016 til 2018 ekki leitað beint til bankans OCBC, sem er staðsettur í Singapúr, til þess að staðfesta að Wirecard ætti peninga í bankanum.

„Stóra spurningin hjá mér er hvað í ósköpunum gerði EY þegar þau undirrituðu ársreikningana?“ sagði háttsettur bankamaður hjá lánveitenda með lánaáhættu á Wirecard.

Háttsettur endurskoðandi hjá öðru fyrirtæki sagði við FT að öflun sjálfstæðrar staðfestingar af bankareikningum væri „sambærilegt kennslu á fyrsta degi í endurskoðendaskóla“.

Einstaklingur með þekkingu á málinu sagði FT að Wirecard hafi ekki átt í viðskiptum við OCBC og að fjárhaldsmaður þýska fyrirtækisins hafi ekki haft neina geymslureikninga hjá bankanum. Hann tók einnig fram að bankinn hafi ekki fengið neinar beiðnir frá EY í tengslum við Wirecard á árunum 2016 til 2018. OCBC neitaði að tjá sig um málið.

ESB rannsakar þýska bankaeftirlitið

Stjórnvöld í Brussel hafa kallað eftir rannsókn á hvort BaFin, þýska bankaeftirlitið, hafi ekki sinnt skyldu sinni í eftirliti með Wirecard, og varað við því að gjaldþrot fjártæknifyrirtækisins ógni trausti fjárfesta í Evrópu.

Valdis Dombrovskis, varaforseti ESB sem stýrir fjármálastefnu sambandsins, sagði FT að ESB þurfi að vera tilbúið til að hefja formlega rannsókn á þýska eftirlitinu fyrir „brot á lögum sambandsins“ ef bráðabirgðarannsókn Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsins, ESMA, leiði í ljós vanrækslu BaFin í framfylgd á lögum ESB um upplýsingagjöf á fjármálamörkuðum.

Í febrúar 2019, innleiddi BaFin tveggja mánaða bann á skortsölu með bréf Wirecard. Tveimur mánuðum síðar höfðaði eftirlitið málsókn gegn tveimur blaðamönnum FT sem greindu frá ásökunum uppljóstrara um reikningssvik hjá dótturfyrirtæki Wirecard í Singapúr.

Felix Hufeld, forseti BaFin, viðurkenndi fyrr í vikunni að „stórt svið einka- og opinberra stofnanna, þar á meðal minnar eigin, hafi ekki verið nógu skilvirkar“ í að koma í veg fyrir „algjört klúður“ hjá Wirecard, er haft eftir honum í frétt FT .