Á fyrstu níu mánuðum þessa árs nam kortaveltan 125,4 milljörðum króna samanborið við 92 milljarða á sama tímabili í fyrra. Aukningin á milli ára nemur því 33,3 milljörðum eða 36%. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2012 var kortaveltan 61,6 milljarðar.

Ef greiðslukortavelta er erlendra ferðamanna er skoðuð eftir útgjaldaliðum kemur í ljós að aukningin hefur hlutfallslega orðið mest hjá bílaleigum landsins. Fyrstu nú mánuðina í fyrra eyddu ferðamenn tæpum 7,3 milljörðum hjá bílaleigum en á sama tímabili þessa árs eyddu þeir 10,4 milljörðum. Aukningin nemur ríflega 3,1 milljarði króna eða 43%. Þetta er umtalsvert meira heldur en kortaveltuaukningin í heild, sem jókst um 36% milli ára.

Veitingageirinn getur líka vel við unað því þar nemur aukningin tæpum 3,9 milljarði eða 39%. Á fyrstu níu mánuðum ársins eyddu ferðamenn 25,4 milljörðum króna í gistingu eða 6,7 milljörðum meira en á sama tíma í fyrra. Þarna nemur aukningin 36%. Í þessu samhengi virðist íslensk verslun aðeins sitja eftir því aukningin milli ára í henni nemur 23%. Á fyrstu níu mánuðunum í fyrra eyddu ferðamenn 14,6 milljörðum í verslun en á þessu ári hafa þeir eytt 18,1 milljarði.

Ekki sér fyrir endann á miklum vexti ferðaþjónustunnar. Í skýrslu Greiningardeildar Arion banka um ferðaþjónustuna, sem kynnt var um síðustu mánaðamót, er því spáð að árið 2018 muni tæplega tvær milljónir ferðamanna koma til landsins. Ef það gengur eftir mun fjöldi ferðamanna tvöfaldast milli áranna 2014 og 2018. Til gamans má geta þess að árið 1949 komu rétt rúmlega 5 þúsund erlendir ferðamenn til landsins.

kortavelta
kortavelta

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .