20 stærstu hagkerfi heims, sem saman mynda G-20 hópin, hafa nú þegar sett andvirði um 3,5% af vergri landsframleiðslu landa sinna í aðgerðir til að stemma stigum við efnahagslegum áhrifum útbreiðslu kórónuveirunnar.

„Þessi upphæð er hærri en örvunaraðgerðirnar á meðan á fjármálakreppunni stóð sem byrjaði 2008,“ segir í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að því er Bloomberg hefur tekið saman.

Á meðal ríkjanna höfðu Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Japan og Bretland þegar eytt meira en sem nemur 10% af landsframleiðslu í aðgerðir þegar sjóðurinn tók saman tölurnar 8. apríl síðastliðinn.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær spáir sjóðurinn að hagkerfi heimsins muni dragast saman um 3% á þessu ári, en á Íslandi um 7,2%. Jafnframt að hér á landi verði 8% atvinnuleysi sem er tvöfalt meira en Seðlabanki Íslands spáði í janúar, en í svartýnari spá bankans er gert ráð fyrir 7% atvinnuleysi og 3,8% samdrætti í hagkerfinu.