Úr viðtali Viðskiptablaðsins við Björgólf Jóhannsson, forstjóra Icelandair Group:

„Mér finnst mjög mikilvægt fyrir Reykjavíkurborg sem stærsta ferðamannastað landsins, að hér sé flugvöllur. Væntanlega er Kvosin mest sótti áfangastaðurinn á landinu árið um kring. Stefnan í ferðaþjónustunni lýtur að dreifingu ferðamanna um landið. Það þurfum við að gera. Við munum ekki ná allri aukningunni sem við viljum sjá inn í framtíðina bara með því að troða ferðamönnum inn í Reykjavík. Þannig að við þurfum dreifingu um landið," segir Björgólfur.

Hann bætir við: „Reykjavíkurflugvöllur gegnir ákveðnu lykilhlutverki í því. Við getum þá sagt á móti að það væri þá best að hafa allt flugið í Keflavík, en innanlandsflugið myndi ekki lifa þar, við gætum þá bara hætt að eyða tíma og fjármunum í það. En það getur lifað í Reykjavík og landsmenn þurfa alltaf að sækja opinbera þjónustu á höfuðborgarsvæðið, Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna."

„Á sama tíma felur staðsetning innanlandsflugs á höfuðborgarsvæðinu í sér stuðning við það að dreifa ferðamannastraumnum um landið. Mér finnst það vera afskaplega skammsýnt af forsvarsmönnum Reykjavíkurborgar að vilja einfaldlega loka flugvellinum. Vilji borgarbúa er annar en þeir eru ekki spurðir. Óvissan um hvort annar flugvöllur verður byggður verður að komast á hreint áður en endanleg ákvörðun er tekin um lokun flugvallar í Vatnsmýrinni. Það hefur veruleg áhrif á ferðaþjónustuna í landinu ef ekki er flugvöllur í Reykjavík. Meðan ekkert annað er í spilunum vil ég halda vellinum hér í Vatnsmýrinni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .