*

þriðjudagur, 19. nóvember 2019
Innlent 2. október 2019 07:41

Eyða þarf vafa um EES

Binda verður enda á „stjórnlagaþrætur“ vegna EES-aðildarinnar að mati starfshóps um EES-samstarfið.

Ritstjórn
Formaður hópsins var Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra. Með honum sátu Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur og Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur.
Aðsend mynd

„Vafi um að stjórnarskrá Íslands heimili fulla aðild að EES-samstarfinu veikir stöðu Íslendinga gagnvart samstarfsríkjum, einkum Noregi og Liechtenstein,“ segir í fyrsta úrbótapunkti starfshóps um Evrópska efnahagssvæðið sem Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra skipaði, en skýrsla hópsins var gefin út í dag. 

„Binda verður enda á stjórnlagaþrætur vegna EES-aðildarinnar, annaðhvort með því að viðurkenna að hún hafi áunnið sér stjórnlagasess eins og aðrar óskráðar stjórnlagareglur eða með því að skrá ákvæði um aðildina í stjórnarskrána,“ segir í öðrum af fimmtán úrbótapunktum skýrslunnar.

Formaður hópsins var Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður. Með honum sátu í hópnum þær Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi frkvstj. Samtaka atvinnulífsins, og Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur og forstöðumaður viðskiptaþróunar Íslandsstofu.

Skýrslan er þrjú hundruð blaðsíður og segir í frétt á vef Stjórnarráðsins að hópurinn hafi leitað til helstu sérfræðinga, bæði hér á landi og erlendis. Samtals voru skráðir viðmælendur starfshópsins 147 talsins, að því er fram kemur í frétt á vef Stjórnarráðssins.

„Í stuttu máli má segja að allir viðmælendur starfshópsins, aðrir en fulltrúar samtakanna Frjálst land hér á landi og Nei til EU í Noregi, töldu EES-samninginn lifa góðu

lífi. Hann væri til verulegs gagns og ávinnings fyrir þá sem innan ramma hans starfa,“ skrifar Björn Bjarnason í aðfararorðum skýrslunnar og bætir stuttu síðar við að ekki hafi verið gerður samanburður á því sem var og er, fyrir og eftir EES-samninginn.  

„Raunar má draga í efa að þjóni nokkrum tilgangi að hverfa til veraldar sem var þegar breytingar eru jafnróttækar og hér er lýst. Markmið hópsins var ekki að setjast í dómarasæti um kosti og galla EES-samstarfsins heldur draga fram staðreyndir svo að lesendur skýrslu hans að gerðu sjálfir upp hug sinn,“ skrifar Björn Bjarnason.