Velta vegna erlendra gesta á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves nam 1,1 milljarði króna um síðustu mánaðamót. Þetta er 66% aukning á milli ára. Ef ferðakostnaður er undanskilinn nam veltan 800 milljónum króna. Þetta eru niðurstöður könnunar ÚTÓN, sem kannaði útgjöld erlendra gesta á hátíðinni. Aukin velta skýrist einkum af því að erlendum gestum á Airwaves-hátíðinni fjölgaði um 46% á milli ára.

Fram kemur í niðurstöðum könnunarinnar að hver gestur eyddi að meðaltali 29.268 krónum á dag og gisti að meðaltali 6,7 nætur hér á landi. Flestir komu frá Bandaríkjunum eða um 18%, 11% frá Þýskalandi og 9% frá Bretlandi. Um 86% gestanna að utan voru að koma í fyrsta sinn á tónlistarhátíðina. Gestir á tónlistarhátíðinni voru 7.543 og voru erlendir gestir 54%. Þetta var fyrsta skiptið sem þeir eru fleiri en íslenskir gestir á hátíðinni.