Erlendir ferðamenn hér á landi eyddu í heildina ríflega 263 milljörðum króna árið 2015, sem var ríflega þriðjungs aukning frá árinu 2014 þegar þau voru 197 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar , en árið 2015 fjölgaði ferðamönnum um tæplega 27% frá árinu áður.

Var heildarfjöldi ferðamanna á árinu 1.587.071 en þar af voru 297.946 daggestir með skemmtiferðaskipum, sem var aukning um 18% milli ára. Fjöldi næturgesta var 1.289.125 sem er 29% fjölgun frá árinu áður.

Síðan árið 2009 hefur hlutdeild farþegaflutninga í heildarútgjöldum ferðamannanna verulega dregist saman, fór það úr 28,9% árið 2009 niður í 21,9% árið 2015.

Hlutdeild gistiþjónustu hefur á sama tíma vaxið en árið 2015 var hún 21,3% en 18,8% árið 2009.