Í júní vörðu erlendir ferðamenn mestu til kaupa á ýmsum skipulögðum ferðum, svo sem hvalaskoðunarferðum, jöklaferðum og öðrum náttúruskoðunar- og ævintýraferðum. Fjöldi ferðamanna í júní nam rúmum 137 þúsundum samkvæmt talningu Ferðamálastofu og vörðu þeir alls 3,8 milljörðum króna í slíkar ferðir. Það gerir um 28 þúsund krónur á hvern ferðamann. Þetta kemur fram í úttekt Rannsóknaseturs verslunarinnar .

Þar segir að algengt sé að verð fyrir náttúruskoðunar- og ævintýraferðir séu á bilinu 8 – 20 þúsund krónur og megi því áætla að meðal ferðamaðurinn fari í 2-3 slíkar ferðir á meðan á dvölinni standi. Útgjöld til þessa flokks hafi aukist nokkuð umfram útgjöld til annarra flokka undanfarin ár. Það sem af er ári hefur fjórðungur ferðamannaveltu verið vegna kaupa á ýmiskonar ferðaþjónustu en var til samanburðar um 19% veltunnar fyrstu sex mánuði síðasta árs, 15% árið 2013 og 14% árið 2012.

Alls greiddu erlendir ferðamenn 18,4 milljarða króna með greiðslukortum sínum hérlendis í júní en það er 32,4% meira en í sama mánuði í fyrra og 65% meira en í júní árið 2013. Sumarmánuðirnir júní, júlí og ágúst eru jafnan veltuhæstu mánuðir ársins og er útlit fyrir að samanlögð velta þessara þriggja mánaða verði um 66 milljarðar þetta árið eða 35% meiri en í fyrra.

Ýmis ferðaþjónusta var, eins og áður segir, umfangsmesti flokkur ferðamannaveltu í júní síðastliðnum en næst mestu vörðu ferðamenn í gistiþjónustu eða tæpum 3.8 milljörðum. Velta með erlendum kortum í verslunum var 2,5 milljarðar, þar af hálfur milljarður vegna dagvöru og annar hálfur milljarður vegna fataverslunar, og var veltan fjórðungi meiri en í fyrra. Þá nam velta vegna bílaleigu 1,6 milljörðum króna og var tæpum þriðjungi meiri en í júní á síðasta ári.