*

fimmtudagur, 28. janúar 2021
Innlent 16. september 2020 14:58

Eyddu 9,5 milljörðum erlendis

84% færri Íslendingar fóru erlendis í ágúst en í fyrra en neyslan erlendis dróst saman um helming.

Ritstjórn

Í ágúst fóru 7.900 Íslendingar út fyrir landsteinana, eða 84% færri en í fyrra að því er fram kemur í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Samanlögð kortavelta Íslendinga, sem dróst saman um 48% erlendis og fór  í 9,5 milljarða, og ferðamanna innanlands dugði ekki til að að vega á móti fækkun ferðamanna hér á landi, en hún var samanlögð tæplega 252 milljarðar króna í sumar, samanborið við 286 milljarða króna í fyrrasumar.

Aukin neysla Íslendinga, sem vóg á móti samdrætti í neyslu erlendis, var mun minni í ágústmánuði en fyrri mánuði sumarsins. Velta í verslun og þjónustu hér á landi var alls 71,4 milljarðar króna í ágúst sem er 2% aukning milli ára miðað við fast verðlag.

Kortavelta Íslendinga jókst um 12% að raunvirði í júlí og 17% í júní, en svo tóku hertar sóttvarnarreglur gildi á ný í upphafi ágústmánaðar sem og sumarleyfi hafa verið að ljúka í fyrri hluta mánaðarins alla jafna.

Það jafngildir 12% samdrætti í krónum talið en 15% ef litið er til veltu á föstu verðlagi. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær nam heildarvelta erlendra greiðslukorta á Íslandi í ágúst 9,3 milljörðum króna, sem er ríflega 70% samdráttur miðað við sama mánuði í fyrra.

Stikkorð: Landsbankinn Hagsjá Kortavelta