*

sunnudagur, 23. febrúar 2020
Erlent 19. september 2018 10:12

Eyddu myndum af veislumáltíð Maduro

Forseti Venesúela gagnrýndur fyrir vellystingar á frægum veitingastað meðan þjóðin sveltur undir sósíalískri stjórn hans.

Ritstjórn
Nicolas Maduro var valinn af forvera sínum Hugo Chavez til að halda áfram hinni svokölluðu bólívarísku byltingu 21. aldar sósíalisma.
epa

Myndum af Nicolas Maduro forseta Venesúela þar sem hann reykti vindil eftir góða máltíð á frægum veitingastað í Tyrklandi hefur verið eytt af Instagram síðu staðarins eftir mikla gagnrýni.

Forsetinn kom við í Tyrklandi á heimleið frá ferðalagi sínu um Asíulönd þar sem hann heimsótti veitingastaðinn Nusr-Et sem varð frægur vegna myndbands af eigandanum að strá salti yfir matinn á kúnstugan hátt. Myndbandið hefur verið efniviður í fjölmörg mím og annars konar grínefni á netinu og hlaut eigandinn, Nusret Gökçe viðurnefnið Salt Bae í kjölfarið.

Myndbönd af Maduro á veitingastaðnum, sem þekktur er m.a. fyrir 100 dala steikur sínar, sýna hann sitjandi í einkarými að máta bol með mynd af Nusret, hallandi sér aftur vel saddan og sællegan og með stóran vindling í hendinni. Hlutu myndirnar mikla gagnrýni frá netverjum vegna bágs efnahagsástands í heimalandi forsetans þar sem um 64% íbúa landsins hafa misst þyngd vegna matarskorts.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um ítarlega hefur mikil verðbólga hrjáð landið auk skorts á orku, og vatni, mat og lyfjum, vegna sósíalískrar efnahagsstefnu stjórnvalda. Rannsókn þriggja helstu háskóla landsins meta það svo að 87% íbúanna hafi búið við fátækt á síðasta ári að því er Bloomberg fréttastofan greinir frá.

Stuttu eftir að hafa birt myndirnar eyddi kokkurinn út myndböndunum af Twitter og Instagram samfélagsmiðlunum, en þar hefur hann um 16 milljónir fylgjanda.