Þegar litið er á tölur um kortaveltu erlendra ferðamanna á Íslandi aftur til ársins 2006 sést að aukningin í krónum til ársins 2012 nemur 260%. Að teknu tilliti til hækkunar verðlags á tímabilinu kemur í ljós að erlend kortavelta á föstu verðlagi jókst um 140% á sama tíma og ferðamönnum hingað til lands fjölgaði um 62%.

Þetta kemur fram í ítarlegri skýrslu deildarinnar um vöxt og væntingar ferðaþjónustunnar sem kom út í dag en þar kemur einnig fram að gróft áætlað megi ætla að hver ferðamaður að eyða rúmlega tvöfalt meira með greiðslukortunum sínum að raungildi í krónum talið en hann gerði árið 2006.

„Árið 2012 nam erlenda kortaveltan um 473 milljónum evra en var 231 milljón evra árið 2006. Aukningin nemur því um 105% á föstu gengi,“ segir í skýrslunni. Þá kemur fram að á árinu 2012 hafi kortavelta erlendra ferðamanna aukist um 21% á milli ára, eða sem nemur um 15% á föstu verðlagi.

„Miðað við tölur um heildarfjölda ferðamanna, sem fjölgaði um 19,6%, má ætla að kortavelta á hvern ferðamann hafi dregist saman um tæp 4% milli ára,“ segir í skýrslunni.

„Sé miðað við árið 2010 hefur kortavelta á hvern erlendan ferðamann minnkað um 10% á föstu verðlagi. Þegar skoðuð eru tvö tímabil fyrir og eftir fall krónunnar, 2005- 2008 og 2009-2012, kemur hins vegar í ljós að kortavelta hvers erlends ferðamanns er að meðaltali 52% meiri á seinna tímabilinu en því fyrra, miðað við fast verðlag.“

Þá kemur einnig fram að ef litið er á hversu miklu ferðamenn eru að eyða í evrum á Íslandi kemur í ljós 24% aukning heildarkortaveltu útlendinga milli áranna 2012 og 2011. Þegar þessari breytingu er deilt niður á fjölda ferðamanna nemur meðaltalsaukningin um 4% á milli ára. Neyslan á hvern ferðamann dróst hins vegar saman um 4% milli áranna 2010 og 2011 og var því svipuð árin 2010 og 2012. Ef meðalkortavelta á mann á föstu gengi er skoðuð yfir sömu tímabil og að ofan, þ.e. 2005-2008 og 2009-2012 kemur í ljós að meðalneysla ferðamanna jókst um 19%.