Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels hefur vakið hneykslan og sætt gagnrýni fyrir að sólunda almannafé í lúxuslifnað sinn og fjölskyldu sinnar. Þetta kemur fram í The Guardian.

Dæmi um eyðslu má nefna ilmkerti fyrir um 200 þúsund krónur og hjónarúm sem hann lét smíða um borð í flugvél sína þegar hann og kona hans ferðuðust til London til að vera viðstödd jarðarför Margaret Thatcher.

Netanyahu og fjölskylda eiga þrjú heimili, tvö í Jerúsalem og síðan lúxusstrandhús í Caesarea. Netanyahu eyddi meira en 571 þúsund pundum eða 112 milljónum króna í heimilin eða þriðjungi yfir fjárlög á síðasta ári. Innifalið í þessari summu eru til dæmis rúmar þrjár milljónir í blómaskreytingar og rúmar tíu milljónir króna í þrif, garðvinnu og viðhald á strandhúsinu í Caesarea þar sem fjölskyldan dvelur stundum um helgar.

Fjölmiðlar í Ísrael hafa sýnt þessari eyðslu mikinn áhuga en skrifstofa forsætisráðherrans hefur vísað á bug ásökunum um bruðl. Bent er á að hann sé í mjög krefjandi starfi sem forsætisráðherra yfir landi sem sé stöðugt í eldlínunni, hann sé í vinnunni allan sólarhringinn, geti hvergi farið einn og eigi sér ekkert einkalíf. Þá er einnig tekið fram að fjölskyldan borgi úr eigin vasa fyrir viðhald á sundlauginni í strandhúsinu.

Einnig kom fram að Netanyahu hefur neyðst til að slíta samningi við ísbúðina Metudela í Jerúsalem þegar upp komst um að 14 kíló af desertum (aðallega pistasíu- og vanillubragðtegundir) voru flutt heim til fjölskyldunnar í hverjum mánuði.