Heildar greiðslukortaeyðsla nam 63,5 milljörðum króna í febrúar síðastliðnum og dróst saman um 13% samanborið við febrúar í fyrra og um 3% samanborið við janúar 2021. Innlend kortaeyðsla óx um 17% en erlend kortaeyðsla dregst hinsvegar ennþá mikið saman, alls 93% milli ára. Þetta kemur fram á vef Rannsóknarseturs verslunarinnar .

Greiðslukortaeyðsla Íslendinga hérlendis hélt áfram að aukast og greindist 9,2 milljarða aukning á milli ára en dróst hinsvegar saman um rúmar 800 milljónir milli mánaða. Erlend greiðslukortaeyðsla hérlendis hélt áfram að dragast saman og nam einungis 1,4 milljörðum króna í febrúar sl. samanborið við tæplega 20 milljarða í febrúar 2020 (-93%) og dróst saman um 93 milljónir milli mánaða.

63,2 milljarða greiðslukortaeyðsla í febrúar

Heildar greiðslukortaeyðsla í verslun og þjónustu í febrúar nam 63,2 milljörðum króna og óx um 8% samanborið við febrúar 2020 sem er auking um 4,6 milljarða.

„Heildar greiðslukortaeyðsla í verslun nam 36,6 ma í febrúar 2021, vex um 23% milli ára (+6.8ma) en dregst saman um -1.8 ma milli mánaða. Aukning er bæði í hefðbundinni verslun sem og í vefverslun á milli ára. Hefðbundin verslun vex um 5,7 ma (+20%) og vefverslun vex um 1.2 ma (+121%) milli ára. Vefverslun sem hlutfall af heildarverslun vex úr 3% í febrúar 2020 í 6% 2021, en lækkar samanborið við 7% í janúar 2021,“ segir á vef Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Þá segir að velta hafi vaxið í öllum stærstu vöruflokkum heildarverslunar milli ára um 6,9 milljarða króna en dregist saman í öllum flokkum á milli mánaða, um alls 1,8 milljarða króna. Hlutfallslega mesta aukningin milli ára hafi verið í og raf- og heimilistækjaverslunum sem óx um 51%. En í krónum talið sé mesta aukningin í stórmörkuðum og dagvöruverslun sem óx um 2,5 milljarða króna, eða 18%. Tollfrjáls verslun dróst saman um 93% en áfengisverslun óx um 35% milli ára.

Sama þróun hafi átt sér stað í vefverslun, aukning hafi mælst á milli ára í öllum vöruflokkum en samdráttur milli mánaða. Eyðsla í lyfja, heilsu og snyrtivöruverslunum hafi vaxið hlutfallslega mest í vefverslun á milli ára, um alls 285%, stórmarkaðir og dagvöruverslanir um 258% og verslanir með heimilisbúnað um 224%.

„Hlutfallslega mesta aukningin í hefðbundinni verslun (e. in-store) er eyðsla í raf- og heimilistækjaverslunum sem vex um 43%. Áfengisverslun vex um 35%, byggingavöruverslun vex um 34% og dagvöruverslun um 15%. Samdráttur var hinsvegar í gjafa- og minjagripaverslun, bóka-, blaða- og hljómplötuverslun og tollfrjálsri verslun.“