Íslenska gleraugnaverslunin Eyesland mun leysa af hólmi verslun Opitcal Studio í Leifsstöð á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Verslunin var valin í samkeppni Isavia um rekstur gleraugnaverslunar á Keflavíkurflugvelli. Tvö fyrirtæki tóku þátt í samkeppninni.

Í tilkynningu frá Isavia segir að við mat á tilboðunum hafi verið horft til tveggja meginþátta, tæknilegs og fjárhagslegs. Sérfræðiteymi hafi verið á bak við hvorn matsflokk en meðal þess sem horft var til var vöruúrval, gæði, þjónusta og verð, hönnun, sjálfbærni og markaðssetning.

„Eyesland var stofnað árið 2010 með það að leiðarljósi að bjóða upp á vandaðar vörur á góðu verði. Síðan þá hefur fyrirtækið vaxið og dafnað og við erum gífurlega spennt fyrir komandi tímum í nýju verkefni. Við höfum ávallt lagt áherslu á faglega og persónulega þjónustu og munum halda því áfram í nýrri verslun okkar á Keflavíkurflugvelli. Við hlökkum til að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem á sér stað á vellinum,“ segir Sigrún Andersen, hjá Eyesland í tilkynningu.

„Við bjóðum Eyesland velkomin í flugstöðina og hlökkum til samstarfsins. Á sama tíma viljum við þakka Optical Studio fyrir gott samstarf til fjölda ára og óskum þeim velfarnaðar. Þau voru brautryðjendur á þessum markaði í flugstöðinni og hafa veitt góða þjónustu í gegnum tíðina. Lögum samkvæmt, bjóðum við út verslunar- og veitingarými flugstöðvarinnar. Við höfum að leiðarljósi að útboðsferlið sé gagnsætt og úrvinnslan skýr. Enda okkar markmið að allir bjóðendur hafi jafna möguleika á að vinna útboðin, hvort sem þeir eru vanir útboðum eða ekki,“ er haft eftir Gunnhildi Erlu Vilbergsdóttur, deildarstjórar verslunar og veitinga hjá Isavia í tilkynningu.

Isavia segir enn fremur í tilkynningunni að ríkisfyrirtækinu beri að bjóða út verslunar- og veitingarými á Keflavíkurflugvelli sem nái yfir lágmarks virði á samningstímanum. Útboðunum sé ætlað að tryggja samkeppni til hagsbóta fyrir neytendur og rekstraraðila. Útboðin séu auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu og séu í samræmi við lög og reglugerðir um opinber innkaup.