Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar hélt í gær kynningarfund um möguleika eyfirskra fyrirtækja til að þjónusta verkkaupa- og framkvæmdaraðila á Grænlandi. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri AFE, segir að 30 stór verkefni liggi fyrir í náma- og olíuvinnslu á Grænlandi. Um 120 manns mættu á kynningarfundinn og það var mikil samstaða hjá fólki að sögn Þorvaldar.

Hann segir í viðtali við N4 að Norlandair og Sjúkrahúsið á Akureyri hafi lengi þjónustað framkvæmdaaðila þar í landi en fleiri fyrirtæki eru þátttakendur í verkefninu eins og Eimskip og Íslandsbanki. Hann segir einnig að þótt eyfirsk fyrirtæki fengju einungis hlutdeild í einu af þeim 30 stóru verkefnum sem framundan eru í Grænlandi gæti það jafnast á við að fá byggingu Kárahnjúkavirkjunar í næsta nágrenni.

Markaðsátak fer nú af stað til að kynna þessi tækifæri á Grænlandi og verður fyrirtækjum á Eyjafjarðarsvæðinu boðið að kynna sér þessi verkefni. Hann vill þó hugsa þetta sem möguleika fyrir allt landið en Eyjafjarðarsvæðið er talið heppilegt vegna staðsetningar og þjónustumöguleika á svæðinu.