Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir Breta hafa öðlast aukna stjórn á sínum málum með útgöngu úr Evrópusambandinu, auk þess að spara sér fjármuni með því að þurfa ekki að greiða lengur inn í sambandið.

Sem kunnugt er náðust samningar milli Breta og ESB loks á aðfangadag eftir áralangar viðræður. „Á sama tíma eru þeir ekki með sama aðgang að evrópska markaðnum og þeir hafa haft fram til þessa. Það er svo undir þeim komið hvernig þeim tekst að vinna úr því.“

Hann segir fólk stundum missa sjónar á því að Bretland sé ekki að fara neitt þrátt fyrir útgönguna úr sambandinu. „Það er ekki verið að flytja Bretlandseyjar í Kyrrahafið eða neitt slíkt.“ Hann á von á að Bretar muni áfram eiga í nánu samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir í öllum helstu alþjóðamálum.

„Þetta er ekki búið“
Annað sem hann segir mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir er að enn eigi eftir að klára að semja um og útfæra veigamikil atriði. „Þetta er ekki búið.“ Sem dæmi verði ekki lengur sjálfkrafa viðurkenning á faglegri menntun og hæfi fólks, né verði þjónustuviðskipti fullfrjáls.

Bresk fyrirtæki fái ekki áframhaldandi heimild til að veita fjármálaþjónustu á EES-svæðinu, og Bretar muni ekki taka upp regluverk ESB um heilbrigðiseftirlit með matvælum og tæknilegum stöðlum. Ákvæði eru þó í samningnum um að úr þessu skuli leyst fyrir lok mars á þessu ári.

Þurftu að semja við ESB fyrst
Guðlaugur segir framtíðarsamning Íslands og Bretlands í kjölfar útgöngu þeirra úr innri markaði Evrópu, sem Ísland er aðili að á grundvelli EES-samningsins, hafa verið í ákveðinni biðstöðu meðan á viðræðum stóð við ESB, þótt viðræður hafi verið í fullum gangi. „Þeir voru ekki tilbúnir að klára framtíðarsamninginn við okkur fyrr en þeir væru búnir að klára að semja við þá. Þeir vildu sjá niðurstöðuna þar fyrst.“

Vongóður um frjálsari viðskipti
Til framtíðar segir hann vonir standa til þess að viðskipti Íslands við Bretland verði enn frjálsari en áður þar sem hægt er. „Við sjáum fyrir okkur að gera framtíðarsamning um vöruviðskipti sem er metnaðarfyllri en það sem við erum með núna. Við höfum verið í EES í aldarfjórðung og við erum ennþá bara með 70% fullt tollfrelsi með fisk inn á innri markaðinn. Það er eitt af því sem við höfum litið sérstaklega til að við viljum auka gagnvart Bretlandi.

Við erum náttúrulega bundin af EES-samningnum, en við höfum verið að vinna að því að nýta allan þann sveigjanleika sem við höfum innan þess ramma til þess að auka frelsi í vöruviðskiptum. Markmið okkar er meira frjálsræði í vöruviðskiptum eftir útgöngu, og þeir hafa tekið vel í það.“

Nánar er rætt við Guðlaug í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .