Eygló Harðardóttir tilkynnti rétt í þessu í beinni útsendingu að hún ætli ekki að bjóða sig fram sem varaformann Framsóknarflokksins. Er því svo gott sem öruggt að Lilja Alfreðsdóttir er næsti varaformaður.

Ásamt Lilju er í framboði til varaformanns Vilhelm Úlfar Vilhelmsson en ansi líklegt verður að teljast að Lilja hafi betur. Hún tilkynnti framboð sitt á Facebook í morgun.

Sigurður Ingi Jóhannsson var rétt í þessu kjörin formaður Framsóknarflokksins. Eygló hafði greint frá því að hún myndi bjóða sig fram til varaformanns einungis ef Sigmundur Davíð Gunnlaugsson yrði ekki lengur formaður. Þrátt fyrir að sú hafi verið raunin hætti Eygló við framboð sitt. Sagði hún ljóst að tvær fylkingar hefðu tekist á þegar kosið var til formanns og dró hún framboð sitt til baka til að fulltrúi hinnar fylkingarinnar gæti fengið sæti varaformannsins og þannig gæti náðst sátt innan flokksins.

Í miðri ræðu Eyglóar heyrðist kallað úr salnum: "Kjaftæði, þú ert ömurleg!" og þurfti að fá ró í salinn.