Kröfuhafar Íbúðalánasjóðs þurfa að taka þátt í úrlausn vandamála sjóðsins, að sögn Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra. Í samtali við Bloomberg fréttastofuna segir hún að það sé sameiginlegt verkefni eigenda sjóðsins og kröfuhafa að finna lausn á vandamálum sjóðsins, en breytingar á starfsemi sjóðsins þurfa að vera róttækar.

Ummæli Eyglóar ríma við það sem sagði um stöðu Íbúðalánasjóðs í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins sem gefin var út í gær. Staða sjóðsins er áhyggjuefni að mati Fjármálaeftirlitsins, en eiginfjárhlutfall sjóðsins hefur farið lækkandi á undanförnum misserum og býr hann við verulega uppgreiðsluáhættu, einkum í núverandi vaxtaumhverfi. Þar er vandi sjóðsins sagður verulegur og mikilvægt að hann verði leystur til frambúðar.