„Ég bjó lengst af í neðra Breiðholtinu eða fram undir tvítugt. Ég lít væntanlega einna helst á mig sem Breiðhylting enda bjó ég lengst þar á mínum æskuárum. Það var gott að búa í Breiðholtinu,“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Eygló Harðardóttir er fædd í Reykjavík þann 12. desember 1972 og verður því 42 ára á árinu. Hún er gift Sigurði Einari Vilhelmssyni. Eiga þau saman tvær dætur, Hrafnhildi Ósk og Snæfríði Unni, og býr fjölskyldan í Hafnarfirði. Hún tók sæti á Alþingi rúmum mánuði eftir hrun.

Eygló ræðir vítt og breitt um lífið og tilveruna í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu.

Um uppvaxtarárin segir hún: „Ég gekk í Breiðholtsskóla og fór síðan í Fjölbrautaskólann í Breiðholti þaðan sem ég útskrifaðist sem stúdent af náttúrufræðibraut enda ætlaði ég alltaf að verða læknir. Þær áætlanir breyttust hins vegar og ég fór í listasögu í Stokkhólmsháskóla þaðan sem ég útskrifaðist árið 2000. Ég fór síðan í framhaldsnám í viðskipta- og markaðsfræði árið 2007 en á enn eftir að ljúka meistararitgerðinni.“

Eygló bjó í Vestmannaeyjum um árabil og þar tók hún þátt í sveitarstjórnarmálum, þar sem hún sat meðal annars í skólamálaráði.

„Ég stefndi nú aldrei neitt sérstaklega að því að fara út í stjórnmál,“ segir Eygló. „Ég gekk sem sagt ekki með þingmann í maganum ef svo má að orði komast. Það var hins vegar alltaf mikið talað um pólitík á mínu heimili. Mamma var og er með mjög sterkar pólitískar skoðanir og amma mín líka. Faðir minn, sem ég ólst ekki upp með en kynntist síðar á lífsleiðinni, hafði starfað fyrir Framsóknarflokkinn í Vestmannaeyjum og þegar ég flutti til Eyja æxluðust hlutirnir þannig að ég var fljótlega komin í stjórnmálin. Mér leiðist að vera lengi í sömu verkefnunum og þess vegna er pólitíkin dásamleg því í henni er maður stöðugt að fást við eitthvað nýtt.“

Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu og viðtalinu við Eygló í Viðskiptablaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .