© Aðsend mynd (AÐSEND)

Eygló Ingadóttir hjúkrunarfræðingur hefur verið ráðin hjúkrunarstjóri Sinnum. Hún mun bera ábyrgð á faglegu starfi heimaþjónustu Sinnum, hvíldardvöl og stjórnun á Heimilinu. Ásdís Halla Bragadóttir, stjórnarformaður Sinnum, segir í samtali við VB.is þetta nýja stöðu sem sé til komin vegna mikilla umsvifa hjá Sinnum. Af þeim sökum hafi verið búin til fagleg staða yfirmanns hjá fyrirtækinu sem hafi umsjón með bæði hjúkrun á dvalarheimilum og heimilum.

Fram kemur í tilkynningu að Eygló hefur verið formaður hjúkrunarráðs Landspítala Háskólasjúkrahúss síðan árið 2010, verkefnastjóri á Landspítala, stundakennari við hjúkrunarfræðideild HÍ auk þess sem hún hefur mikla reynslu af almennum hjúkrunarstörfum sl. 20 ár.

Eygló er gift Gunnsteini Ólafssyni tónlistarmanni og eiga þau þrjú börn.

Hjá Sinnum starfa nú yfir 70 starfsmenn við heimaþjónustu, á Sjúkrahóteli, á Heimilinu, við vinnuprófanir o.fl. verkefni á velferðarsviði þar sem nokkur hundruð einstaklingar njóta þjónustu fyrirtækisins daglega. Víðtæk reynsla og þekking Eyglóar af hjúkrun og stjórnun er dýrmæt viðbót í starfsmannahópinn en hún mun formlega hefja störf þann 1. nóvember nk.