Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið úthlutun 46 verkefna- og rekstrarstyrkja, að upphæð 167 milljóna króna, til félagasamtaka sem starfa á sviði félagsmála. Þetta kemur fram í frétt á vef ráðuneytisins .

Þar af eru sjö styrkir til félagasamtaka sem hafa verið með 1–2ja ára samninga sem nema samtals 82 m.kr. Heildarfjárhæð annarra styrkja nemur um 85 m.kr. Auk verkefna og rekstrarstyrkja eru veittir styrkir til félagasamtaka sem starfa á sviði forvarna, fræðslu og endurhæfingar.

Auglýst var eftir umsóknum í október síðastliðnum og bárust umsóknir um 69 verkefni. Úthlutun þeirra byggist á reglum um styrki velferðarráðuneytisins sem veittir eru af safnliðum fjárlaga ár hvert.