Húsnæðisfrumvörp Eyglóar Harðardóttur velferðarráðherra verða tekin fyrir á fundi ríkisstjórnarinnar í dag eða á þriðjudag.

Frumvörpin eru í hefðbundnu kostnaðarmati hjá fjármálaráðuneytinu og yfirlestri hjá forsætisráðuneytinu. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var unnið í þeim fram eftir degi í gær til að reyna að koma þeim fyrir ríkisstjórn í dag.

Velferðarráðherra boðaði í upphafi kjörtímabils að farið yrði í umfangsmiklar aðgerðir í húsnæðismálum. Þrjú frumvörp um málið er að finna á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi þing; um húsnæðisbætur, húsnæðismál og húsnæðissamvinnufélög.

Eygló segist í samtali við Fréttablaðið leggja leggur ríka áherslu á að frumvörpin verði kláruð á yfirstandandi þingi. Hún vonast til þess að Alþingi nái að ljúka afgreiðslu frumvarpanna fyrir þingfrestun í vor. Ef það náist ekki verði að halda sumarþing.