Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að vaxtabætur muni ekki lækka þrátt fyrir breytingar á húsnæðisbótakerfum sem hafa það að markmiði að jafna stuðning við leigjendur og eigendur húsnæðis. Þetta er á meðal þess sem kom fram í viðtali við hana í þættinum Vikulokin á Rás 1 í dag.

Frumvörp Eyglóar um breytingar á aðkomu ríkisins að húsnæðismálum hafa verið nokkuð til umfjöllunar undanfarið. Afgreiðsla á þeim hefur tafist nokkuð og hefur það verið rakið til þess að ekki hafi náðst að klára kostnaðargreiningu á þeim fyrir páska.

Í viðtalinu í dag sagðist Eygló telja að það sé draumur langflestra Íslendinga að eignast sitt eigið húsnæði. Á meðal þess sem væri til skoðunar í velferðarráðuneytinu væri að hjálpa fólki að kaupa húsnæði með því að auðvelda fólki að sagna eigið fé í íbúð. „Að þegar þú ert búinn að spara í ákveðinn tíma fyrir húsnæði og tekur ákvörðun um að kaupa, þá kemur ríkið með einhvers konar stofnframlag á móti,“ sagði Eygló og sagði að breska ríkisstjórnin hafi kynnt sambærilega leið nýlega.

Tryggja eigi jafnræði

Eygló benti á að grunnupphæð vaxtabóta væri helmingi hærri en grunnupphæð húsaleigubóta. „Hugmyndin er bæði að gera ákveðnar breytingar á stuðningi við leigjendur, en líka að vaxtabótakerfið með tíð og tíma taki ákveðnum breytingum, þannig að þessi kerfi mætist og séu með sambærilegum hætti,“ sagði Eygló.

Spurð um það hvort vaxtabæturnar myndu lækka sagði Eygló: „Nei, það er verið að tala um að leggja áherslu á það að fyrirkomulag stuðningsins sé með sambærilegum hætti.“ Hugmyndin sé meðal annars að jafna tekjumörk og eignaskerðingarmörk auk þess sem litið verði á fjölda heimilismanna frekar en aldur þeirra. Markmiðið sé að tryggja jafnræði á húsnæðismarkaði.