Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra hélt ræðu á Jafnréttisþingi sem haldið var í gær, en orð hennar hafa vakið mikla athygli.

Til þingsins var boðað samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Eygló lagði fyrir þingið skýrslu um stöðu og þróun helstu jafnréttismála á árabilinu 2013 - 2015.

Í ræðu sinni snertir Eygló á því hvernig þróun jafnréttis hefur verið, lýðræðinu, mannréttindum og tjáningarfrelsinu.

„Hatursorðræða á netinu grefur undan lýðræðinu og kallar á aðgerðir,“ segir Eygló.  „Til dæmis hvað varðar dreifingu upplýsinga og nektarmynda vegna þess að hún gengur gegn friðhelgi einstaklinga og einkalífsins og elur á kynjamismunun.“

Sérstaklega hafa athugasemdir hennar við tjáningarfrelsið vakið athygli. Í ræðunni segir Eygló að ræða þurfi „hvenær gæti talist nauðsynlegt að takmarka tjáningarfrelsið.“

„[...] við þurfum að ræða hvernig við getum komið böndum á hatursorðræðu á netinu,“ segir Eygló í ræðu sinni. „Gerendur eiga auðvelt með að komast hjá lögum og reglum, til dæmis með því að vista klámsíður í löndum með takmarkaða löggjöf og oftar en ekki fela þeir sig í skjóli nafnleysis.“