Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, vill leggja sérstakan skatt á skuldir allra þeirra fyrirtækja sem starfa undir lögum um fjármálafyrirtæki, líka fjármálafyrirtæki í slitum. Þetta leggur hún til í pistli á heimasíðu sinni og segir slíka aðgerð vega á móti hinum dýru aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur lofað að ráðast í. Vísar hún þar meðal annars í afnám hækkurnar virðisaukaskatts á gistingu og breytingu á lögum um hið sérstaka veiðigjald.

Vill skoða lækkun á fjársýsluskatti

„Markmið laganna er annars vegar að afla ríkinu tekna til að mæta þeim mikla kostnaði sem fallið hefur á ríkissjóð vegna hruns íslenska fjármálakerfisins og hins vegar að draga úr áhættusækni fjármálafyrirtækja með því að leggja sérstakan skatt á skuldir þeirra. Af einhverri ástæðu töldu menn ekki rétt að leggja þennan skatt á fjármálafyrirtæki í slitum, þrátt fyrir að þeirra sé mesta ábyrgðin á þeim kostnaði sem fallið hefur á ríkissjóð vegna hruns fjármálakerfisins. Í raun þjóðarbúið í heild sinni,“ segir í pistli Eyglóar.

Eygló vill jafnframt hækka skattinn í 0,3-0,4% og leyfa fjármálafyrirtækjum að draga frá skattinum gjald vegna greiðslu í Tryggingsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Þá segir hún mega skoða að lækka fjársýsluskattinn sem leggst á launagreiðslu fjármálafyrirtækja.

Skuldir þeirra lögaðila sem starfa undir lögum um fjármálafyrirtæki eru um 10 þúsund milljarðar króna og ætti skattur á þær því að geta skilað um 30-40 milljörðum króna árlega í ríkissjóð og segir hún það eiga að duga fyrir fyrirhuguðum skattalækkunum og auknum útgjöldum þar til þær aðgerðir fara aftur að skila auknum umsvifum.