Þrátt fyrir peningaflóð í áratugi hafa mörg spilavíti og önnur fyrirtæki í Las Vegas átt erfitt uppdráttar síðustu misseri en aldrei fyrr hafa jafn mörg fyrirtæki sótt um greiðslustöðvun í Las Vegas og í fyrra.

Í vikunni sótti hið sögufræga Monorail Company, sem sinnt hefur lestarsamgöngum í Las Vegas í áratugi, eftir því að verða tekið til gjaldþrotaskipta.

Þrátt fyrir að félagið rukki farþega um 5 dali fyrir hverja ferð og flytji þúsundir farþega á hverjum degi réð félagið ekki við 1 milljarðs dala skuld og 24% samdrátt í farþegafjölda á milli ára og því fór sem fór. Miklar framkvæmdir á vegum félagsins undanfarin ár og fjármagnskostnaðurinn sem þeim fylgir hafa nú kollriðið félaginu.

En spilavítin eiga einnig í vanda. Fyrir utan mikinn fjármagnskostnað vegna uppbyggingar síðustu ára hefur fjöldi túrista til Las Vegas snarminnkað á hálfu öðru ári, eða um rúm 8%, og ver því minna í spilavítunum en áður þekktist.

Þeir sem hafa komið til Las Vegas vita að öll aðstaða og uppihald er frekar ódýrt, s.s. gisting, matur, drykkir og fleira en þess í stað treysta spilavítin á að gestir þeirra verji því um meira fjármagni í áhættuspil.

Það er löngu vitað að hótel- og veitingareksturinn einn og sér er rekinn með miklu tapi vegna þessa en tapið hefur hingað til verið smávægilegt miðað við hagnaðinn af spilavítunum sjálfum. Nú þegar færri koma til að verja fjármagni í spilavíti gefur augaleið að reksturinn verður erfiðari.

Af fjölmiðlun vestanhafs má þó greina að eigendur spilavítanna láta engan bilbug á sér finna. Spilavítin þola nokkur ár af niðursveiflu þó svo að minni rekstraraðilar í borginni geri það ekki. Eigendurnir treysta á að tími uppsveiflu muni koma og þá verða þeir tilbúnir að stokka spilin og setja spilakassana aftur í gang.