*

miðvikudagur, 27. október 2021
Innlent 15. mars 2020 17:02

Eyjafjarðarsvæðið fórnarlamb

Nýhættur stjórnarmaður í Icelandair og Landsneti segir fólk ekki eiga vera of lengi í stjórn. Segir leyfisveitingakerfin of þung.

Höskuldur Marselíusarson
Fráfarandi stjórnarmaður í Landsnet bendir á að byggðalínan sem hringtengdi landið saman í eitt rafmagnsflutningskerfi á áttunda áratugnum er að verða hálfrar aldar gömul og hugsa þurfi næsta áfanga til langrar framtíðar.
Gígja Einars

Ómar Benediktsson fráfarandi framkvæmdastjóri Farice hættir þessa dagana einnig í stjórn Landsnets á aðalfundi félagsins, sem og á dögunum í stjórn Icelandair, þar sem hann segist ekki hafa notið jafnræðis hjá tilnefningarnefnd þar sem stjórnarformaðurinn sat.

Hann segist hafa lært mjög mikið af aðkomunni að Landsneti og mikilvægi orkuinnviða landsins, ekki síður en fjarskiptainnviðanna, eins og þjóðin öll hafi fundið berlega í aftakaveðrum vetrarins. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um ber hann uppitíma strengjanna við gagnastrenginn yfir til Grænlands, og segir þjóðina kannski átta sig betur á mikilvægi tenginganna ef ekki tækist eins og hingað til að tryggja sambandið 100% tímans.

Fólk eigi ekki að vera of lengi í stjórn

„Ég er búinn að vera átta ár í stjórn Landsnet og finnst mér tímabært að einhver annar taki við keflinu, mér finnst það eiga að gilda bæði um almenningshlutafélög og opinber félög að fólk eigi ekki að vera of lengi í stjórn. Það sem hefur komið mér mest á óvart er hve þungt allt kerfið hefur verið í kringum leyfisveitingar fyrir línuframkvæmdir.

Eins og til dæmis með Kröflulínu 3 frá Fljótsdal að Kröflu, sem er fyrsti áfanginn í uppbyggingu á nýrri byggðalínu um landið, þá var hún eitt fyrsta málið sem kom á borð til okkar þegar ég byrjaði og núna loksins eru að hefjast framkvæmdir, þrátt fyrir að það væri tiltölulega mikil sátt um þetta verkefni," segir Ómar. Honum finnst ekki nóg að gert í að einfalda ferlið í nýrri aðgerðaáætlun stjórnvalda um uppbyggingu innviða landsins.

„Fyrir mig, sem er fæddur og uppalinn úti á landi, þá stendur upp úr að gert var stórátak með byggðarlínunni sem tengdi allt landið saman á áttunda áratugnum svo hægt var að flytja rafmagn á milli landshluta ef eitthvað gerðist. Hún er núna að verða fimmtíu ára gömul og að verða fulllestuð og nú virðist gleymast að horfa fram á næstu 50 árin, því oft er verið að gagnrýna uppbyggingu næstu kynslóðar byggðalínunnar, á forsendum sem miða við orkuþörf dagsins í dag."

Ekki lengur vesen með rafmagn á Vestfjörðum

Ómar bendir á að með uppbyggingu olíuknúinnar varaaflsstöðvar í Bolungarvík, þar sem hann er fæddur og uppalinn, hafi tekist að bæta raforkuöryggi á norðanverðum Vestfjörðum sem hafi löngum verið vandamál, öfugt við það sem gerðist á Hofsósi í vetur.

„Það var t.d. ekkert vesen með rafmagn á Vestfjörðum þegar versta veðrið var í vetur enda kveikt á varaaflinu áður en brjálaða veðrið kom. Mjólkárvirkjun er nægilega stór til að sinna suðurfjörðunum og þannig tókst að bæta verulega raforkuöryggi á Vestfjörðum ef eina tengilínan við meginflutningskerfið bilaði. Eyjafjarðarsvæðið hefur verið fórnarlamb vegna þess hve þunglamalegt kerfið hefur verið í uppbyggingu nýrrar byggðalínu.

Andstaða hefur verið við línu frá Blönduvirkjun í gegnum Skagafjörð og til Akureyrar og hún verið óhemju lengi í ferli. Það er sérstaklega átakanlegt þegar haft er í huga að Blönduvirkjun er ekki keyrð á fullum afköstum þar sem ekki er hægt að koma rafmagninu frá virkjuninni auk þess sem hægt er að byggja mjög hagkvæma og umhverfisvæna rennslisvirkjun á sama stað. Loks er einungis ein lína út á Suðurnes þar sem hefur verið vaxandi orkunotkun vegna mikillar fjölgunar íbúa og gagnavera, og svo er það öryggi flugvallarins," segir Ómar.

„Síðan er viðkvæmt framtíðarmál, hvort halda eigi áfram með þennan hring, eða fara yfir Sprengisand og þannig tengja Norður- og suðurland, sem væri bæði stysta og hagkvæmasta leiðin. Jákvætt er að tæknilega væri hægt að setja um 50 kílómetra af þessari leið í jörð miðað við riðstraum. Ef breytt í jafnstraum sem er þó óvenjulegt fyrir svona stutta leið þá væri hægt að leggja jarðstreng alla leið en yrði mun dýrari lausn. Landsneti hefur tekist að auka samráðið við hagsmunaaðila mikið undanfarið, sem er sannarlega að skila okkur áfram og allt er að vinnast betur með heimafólki, en það breytir því ekki að opinberi hlutinn er enn of hægur."

Ekki jafnræði fyrir tilnefningarnefnd

Ómar segist vissulega hafa orðið fyrir vonbrigðum með að hafa ekki fengið náð fyrir augum tilnefninganefndar til áframhaldandi stjórnarkjörs í Icelandair.

„Á hinn bóginn þá gerði ég mér grein fyrir að þessi staða gæti komið upp ef Úlfar mundi sækjast eftir endurkjöri. Ég verð hins vegar að viðurkenna að það kom mér á óvart að hann mundi sækjast eftir endurkjöri eftir 9,5 ára setu í stjórn. Úr því að svo fór þá var ekki jafnræði á milli mín og hans gagnvart tilnefningarnefnd þar sem hann sat sjálfur og hinir tveir í nefndinni höfðu hitt mig einu sinni í stuttu spjalli," segir Ómar.

„Þegar tillögur nefndarinnar voru kynntar þá fékk ég hvatningu frá hluthöfum sem höfðu lesið þær hæfiskröfur sem nefndin hafði sett og voru þeirrar skoðunar að ég uppfyllti fleiri skilyrði en aðrir. Ég áttaði mig hins vegar strax á því að þrír stærstu hluthafar félagsins væru í raun á bak við þá þrjá karlmenn sem tilnefningarnefnd lagði til og því væri staða mín erfið út af kynjakvótanum. Næstu þrír hluthafar eiga rúmlega 22% og eru þeir lífeyrissjóðir vanir að dreifa atkvæðum á nokkra frambjóðendur, sem gerir í raun völd þriggja stærstu hluthafanna meiri."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.