Flugfélag Íslands hættir áætlunarflugi til Eyja um mánaðarmót um leið og ríkið hættir stuðningi við flug á þessari leið. Í staðinn mun flugfélagið Ernir taka við keflinu og þá án ríkisstyrkja.

Flugfélagið Ernir mun hefja áætlunarflug til Vestmannaeyja 4. ágúst en félagið á 40 ára afmæli um þessar mundir. Tekur félagið þá við keflinu af Flugfélagi Íslands sem hættir áætlunarflugi til Vestmannaeyja 1. ágúst. Þá verður styrkveitingum ríkisins vegna þessa flugs einnig hætt, um leið og nýja Landeyjahöfnin í Bakkafjöru verður tekin í gagnið.

Hörður Guðmundsson, aðaleigandi Flugfélagsins Ernis, segir félagið ekki fá neina styrki til þessa flugs. Flugfélag Íslands hefur fengið greitt um 4.000 krónur með hverjum farþega, en fluttir hafa verið um 33-34.000 farþegar á ári. Slíkur styrkur hefur þó ekki verið við lýði nema í tiltölulega fá ár. Flugfélagið hefur samt ekki séð sér fært að halda þessu áfram á Fokker og Dash 8 vélum sínum sökum lélegrar nýtingar en Ernir er með mun minni vélar í sínum rekstri.

-Nánar í Viðskiptablaðinu