„Ef að til þess kæmi að af forkaupum verði þá breytir það engu fyrir niðurstöðuna hvað seljandann varðar. Hann fær sömu greiðslu á sömu forsendum,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Bærinn hefur nú birt Síldarvinnslunni og útgerðarmanninum Magnúsi Kristinssyni áskorun um að leggja fram forkaupsréttartilboð í tvö skip og þorskkvóta Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum á hádegi á föstudag. Verði það ekki gert muni bærinn fara með málið fyrir dóm.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Eins og fram kom fyrir helgi hefur Síldarvinnslan samið um kaup á eignum Bergs-Hugins. Kaupin eru liður í skuldauppgjöri Magnúsar við Landsbankann. Bæjarstjórn Vestmannaeyja tók málið upp og telur hún sig eiga forkaupsrétt að eignum útgerðarinnar í samræmi við 12. grein fiskveiðistjórnunarlaga. Fram kemur í tilkynningu frá Elliða, að bæjarstjórnin geti tekið ákvörðun um málið innan fjögurra vikna eftir að tilboð verði lagt fram.

Elliði segir í tilkynningu:

„Eftir að hafa farið vandlega yfir þetta mál með lögmönnum og sérfróðum aðilum á ég frekar von á því að kaupandi og seljandi Bergs-Hugins verði við áskorun okkar og leggi fram forkaupsréttartilboð það sem við óskum eftir. [...] Þetta mál er brýnt, bæði fyrir okkur hér í Eyjum sem og íbúa sveitarfélaga um allt land.  Í umræðunni um sjávarútvegin þá hefur allt kapp verið lagt á deilu um fáheyrða skattheimtu og eignarupptöku sem bara myndu gera hlutina verri.  Það gleymist að við íbúarnir í sjávarsamfélögunum eigum mikilla hagsmuna að gæta.  Hér eru allar okkar eignir, fortíð og framtíð.  Börnin okkar eiga hér sinn eigin alheim og okkur stendur ekki til boða að leysa landfestar.  Við sem ekki eigum kíló í sjó en eigum allt undir sjávarútvegi teljum okkur eiga rétt.  Nú viljum við fá úr því skorið hvort að sá réttur sem löggjafin ætlaði okkur sé virkur.  Við erum því reiðubúin til að fara alla leið með málið.“