Í Fréttablaðinu fimmtudaginn 10. september mátti sjá undarlega frétt. Fyrirsögn fréttarinnar er „Leitað að nýrri stjórnarskrá“ og við hana voru settir upphafsstafir Aðalheiðar Ámundadóttir, fréttastjóra blaðsins, en hún var starfsmaður þingflokks Pírata og oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi. Síðar gerðist hún kosningastjóri Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur í forvali Samfylkingarinnar í Reykjavík. Stjórnmálaafskipti hennar hafa því ekki verið samfelld sigurganga. Eftirfarandi er hluti fréttarinnar:

„Almenningur leitar nú að nýju stjórnarskránni undir myllumerkinu #Hvar? Með herferðinni er vakin athygli á því að í október eru átta ár frá því að þjóðin greiddi atkvæði um nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu og í nóvember verður áratugur frá því að blásið var til þúsund manna þjóðfundar um stjórnarskrármál í aðdraganda þess að stjórnlagaráð tók til starfa. Fólk tekur þátt í herferðinni með því að deila myndum af sér á samfélagsmiðlum þar sem það leitar að stjórnarskránni meðal annars í ruslafötum, innan um runna og á bak við húsgögn á heimilinu. Er þetta gert undir myllumerkinu #Hvar?“

***

Fjölmiðlarýni þótti þetta mikil tíðindi enda veit hann ekki um neinn sem hefur verið að leita að nýju stjórnarskránni að undanförnu og ekki hefur hann orðið var við að vinir hans hafi verið að deila myndum af sér á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu Hvar. Þrátt fyrir að fjölmiðlarýnir – fjölskylda hans og vinir – séu skrýtnar skrúfur þá tilheyra þau vissulega almenningi á Íslandi. Það sama gildir um þá fjölmörgu Íslendinga sem telja enga ástæðu til þess að lögfesta nýja stjórnarskrá.

Eftir lestur fréttarinnar var kannað hvað væri að finna á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu Hvar? Sú leit skilaði litlum árangri öðrum en þeim að fjölmiðlarýnir hefur nú ákveðið að heimsækja króatísku eyjuna Hvar með fjölskyldunni næst þegar hann tekur sér sumarleyfi. Með öðrum orðum: Ef leitað er eftir myllumerkinu Hvar? á samfélagsmiðlum þá skilar leitin fjölda mynda af fólki að sóla sig á eyjunni Hvar í Adríahafinu í bland við örfáar myndir af flippkisum á vinstri vængnum hér á landi sem leita að hinni svokölluðu nýju stjórnarskrá í ruslatunnum og runnum hér og þar.

***

Almenningur á Íslandi er ekki að leita að nýrri stjórnarskrá, þó að vel megi vera að einhverjir Íslendingar séu í alvöru að leita hennar „in all the wrong places“ eins og stendur í kvæðinu. Það sem sagt var í Fréttablaðinu var ekki aðeins rangt heldur hreinn og beinn áróður sem á ekkert skylt við fréttamennsku. Blaða- og fréttamönnum er vissulega frjálst að hafa skoðanir en þeir ættu að forðast að fjalla um mál sem þeir hafa sterkar skoðanir á. Það grefur undan trúverðugleika fjölmiðilsins. Í raun verður að teljast mikið undrunarefni að framsetning þessarar „fréttar“ hafi ekki stöðvast á ferð sinni um ritstjórnarsíu blaðsins.

***

Flestir fjölmiðlar hafa átt í erfiðleikum með að fjalla um þetta stjórnarskrármál og segja má að háværar raddir þeirra fáu sem telja að ný stjórnarskrá sé lausnin við öllum pólitískum úrlausnarefnum hafi haft ráðandi áhrif á framsetningu fjölmiðla á málinu. Spunaþráðurinn er eftirfarandi: Grasrótin reis upp eftir fjármálakreppuna og efndi til þjóðfundar þar sem fram kom skýr vilji þjóðarinnar til að semja stjórnarskrá. Í kjölfarið var kosið til stjórnlagaráðs sem samdi stjórnarskrá sem svo þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og nú er beðið eftir að þingið fari eftir vilja þjóðarinnar. Þessi saga á sér enga stoð í veruleikanum.

***

Vissulega var kosið til stjórnlagaþings sem átti að fá það verkefni að semja nýja stjórnarskrá á sínum tíma. Kosningaþátttaka var 36,8%. Áhöld voru um hvort kosningin stæðist lög og var því framkvæmd þeirra kærð. Að lokum ógilti hæstiréttur kosningarnar og var þar með lögmæti fyrirhugaðs stjórnlagaþings að engu. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir hafði ógildinguna að engu og skipaði þá sem voru kjörnir í hinum ólöglegu kosningum í svokallað stjórnlagaráð sem átti að gera tillögur að breytingum á stjórnarskrá Íslands. Mikilvægt er að átta sig á að með þessu fékk stjórnlagaráð umboð sitt frá þáverandi þingmeirihluta.

Sumarið 2011 skilaði svo stjórnlagaráð tillögum sínum að nýrri stjórnarskrá sem meðal annars var ætlað að tryggja landsmönnum öllum rétt til „dúntekju, réttmætanleg gögn öll og gæði og góð bílastæði – betri tóngæði, meira næði og frítt fæði“ svo vísað sé til ljóðs Megasar um aðra sjálfstæðisbaráttu. Í framhaldinu var svo efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu. Því miður má allt of oft ætla af umfjöllun fjölmiðla að þjóðaratkvæðagreiðslan hafi verið um hvort meirihlutavilji væri fyrir því að tillögur stjórnlagaráðs yrðu samþykktar sem ný stjórnarskrá lýðveldisins. Um var að ræða ráðgefandi þjóðaratkvæðisgreiðslu um tillögurnar og álitaefni þeim tengdum. Á kjörseðlinum var spurt um eftirfarandi:

  • Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
  • Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?
  • Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
  • Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör  í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?
  • Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?
  • Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Af 115. greinum var aðeins spurt um fimm þeirra. Voru það einu álitaefnin? Voru þær hið eina, sem almenningur mátti láta ljós skoðanir á, en hinar 110 greinarnar ósnertanlegar? Mátti þingið í engu hrófla við frumvarpinu nema til að samræma þær greinar úrslitum skoðanakönnunarinnar? Eða var e.t.v. ætlast til þess að þingið færi að gildandi stjórnarskrá um stjórnarskrárbreytingar? Nema náttúrlega stjórnarskrárleitendum þyki fráleitt að fara að öðrum stjórnarskrám en þeirri sem stjórnlagaráð Jóhönnu smíðaði. (Og öllum lögspekingum ber saman um að muni setja alla lagabálka og réttaröryggi í uppnám.) Það að tillögurnar verði lagðar til grundvallar er augljóslega ekki það sama og þær verði samþykktar af Alþingi óbreyttar. Spurningarnar um álitaefni í atkvæðagreiðslunni fela beinlínis í sér aðkomu Alþingis að útfærslu nýrrar stjórnarskrár.

***

Fjölmiðlar hafa ekki fjallað mikið um þennan þátt málsins og þegar þeir fjalla um undirskriftasöfnunina sem nú stendur yfir þá benda þeir aldrei á þær miklu þversagnir sem er að finna í kröfutextanum á heimasíðu söfnunarinnar:

„ Við krefjumst þess að Alþingi virði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 og lögfesti nýju stjórnarskrána. Í kosningunni samþykktu yfir 2/3 hlutar kjósenda að tillögurnar sem kosið var um skyldu verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. Tillögurnar eru heildstæður samfélagssáttmáli, það er ekki Alþingis að velja og hafna ákvæðum úr sáttmálanum. Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn og setur valdhöfum mörk en ekki öfugt. Við ætlum ekki að bíða í heilan áratug eftir að nýja stjórnarskráin taki gildi og því krefjumst við aðgerða strax!“

Sem dæmi um þversögn er að meirihluti reyndist fyrir að vera með ákvæði um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ofangreind krafa felur þannig í sér að einn hluti niðurstöðu hennar verði hunsaður. Fjölmiðlar hafa að mörgu leyti brugðist þegar kemur að því að halda staðreyndum þessa máls til haga og á meðan hafa raddir þeirra sem klifa sífellt á að stjórnmálamenn séu að svíkja almenning um að samþykkja þessar tillögur stjórnlagaráðs verið alltof fyrirferðarmiklar.

***

Að lokum má svo benda þeim sem eru leitandi að nýrri stjórnarskrá um allar koppagrundir að hún er aðgengileg á heimasíðu Stjórnlagaráðs. Þeir sem eru að leita að prentuðu eintaki ættu að taka tilmæli Finns vinnusíma, eins dáðasta starfsmanns hinnar goðsagnakenndu raftækjaverslunar Denver í Síðumúla, á Twitter á dögunum til sín: „ÞESSI STJORNASKRÁ ER ÁBIGGILEGA ÞAR SEM ÞIÐ SKILDUÐ HANA EFTIR SÍÐAST“.